Wednesday, November 16, 2011

Stúlkan með rósina



Einu sinni var ung stúlka. Stúlkan sú bjó í litlu koti sem umlukið var stórum akri fullum af rósum. Rósirnar voru þær fegurstu í manna minnum, stúlkan gaf þeim ekkert eftir. Tinnusvartir lokkar og brún augu sem gleypt gátu sálir manna. Stúlkan fór á markaðinn á hverjum degi með stórt búnt af rósum. Fólk beið í röðum eftir því að kaupa rós og á hverjum degi seldust þær allar. Ilmurinn hafði unaðsleg áhrif á fólk. Ástir kviknuðu, þráin blómstraði og sorgir hurfu á brott. Rósirnar gáfu frá sér góðar tilfinningar og tóku til sín slæmar. Þær drukku í sig allan söknuð, heift og lygar. Eftir nokkrar stundir urðu þær síðan gráar og dóu hljóðlega.

Stúlkan átti föður. Faðir stúlkunnar var bitur maður. Allur peningurinn sem fékkst fyrir rósirnar geymdi hann í stóru herbergi. Staflar af pening. Faðir stúlkunnar átti aldrei nóg. Hann eyddi aldrei neinu og staflarnir héldu áfram að hækka og gullið að flæða.

Stúlkan sá um rósirnar. Ef faðir hennar kom of nálægt þeim visnuðu þær upp og dóu. Á hverju kvöldi mátti heyra óp stúlkunnar. Allir litu undan. Enginn vildi eyðileggja ilm rósanna.

Með hverju árinu urðu rósirnar fegurri en stúlkan tók að visna. Handleggir hennar urðu beinaberir, augnaráðið tómt, fæturnir óstöðugir. Fyrst hætti fólk að horfa í augun á henni svo að tala við hana. Undir lokin komst sá orðrómur á kreik að stúlkan væri haldin bölvun. Fólk forðaðist snertingu hennar. Líkt og sorg hennar væri smitandi. Hrópin í næturhúminu urðu veikari með hverju árinu þar til að lokum þau hættu.

Mánuður leið án þess að nokkur kannaði afdrif stúlkunnar. Að lokum lagði hópur manna leið sína upp að litla kotinu. Stækur rotnunarþefur fyllti vit þeirra er þeir nálguðust. Þeir börðust í gegnum óhirtar rósirnar til þess að komast að upptökum lyktarinnar. Á miðju rósaenginu lá stúlkan með sundurskorna handleggi.  Rósirnar vöfðu sig í kringum hana svo nánast ómögulegt var að komast að líkinu. Þyrnum stráðar greinarnar lögðu verndar hendi yfir hana. Moldin mettuð blóði.

Mennirnir þustu inn í húsið og voru samstundis blindaðir af ofbirtu. Gull líkneski í mannstærð var á miðju stofugólfinu. Þjáning skein úr rúbín augum, hræðsla úr demantsskreyttum munni. Mennirnir hófust handa við að bera út líkneskið. En í sama svipan heyrðist hátt snark. Rósirnar stóðu í ljósum logum. Óbærileg sorg fyllti mennina sem nú önduðu að sér allri heiftinni sem rósirnar höfðu drukkið í sig. Þeir flúðu eins og fætur toguðu. Hálfbrunnum rósablöðum rigndi yfir bæinn í nokkra daga en að lokum dvínaði eldurinn. Allt var brunnið til kaldra kola.

Árin liðu og stúlkan og faðir hennar gleymdust. Minning rósanna lifði lengst en jafnvel þær týndust á endanum í þoku minninga.

En ef vel er lagt við hlustir á kvöldi sem þessu, þegar kyrrðin umlykur allt, má enn greina fjarlæg óp og dauft snarkið í eldinum.

No comments:

Post a Comment