Sumir gráta með augunum. Örsmáir saltdropar sem líða óþvingað og settlega niður kinnarnar. Enn aðrir gráta með hjartanu. Þá er eins og skrúfað hafi verið frá stórfljóti. Hjartagrát fylgja hinar ýmsu og oft óheppilegu aukaverkanir. Þar má nefna rauða nefið, ekkasog, augun blóðsprungin, varirnar þurrar og allir nærstaddir rennvotir sökum vatnavaxtanna. Röddin fær sjálfstæðan vilja og líkist oft á tíðum frekar mökunarkalli framandi fuglategundar en hinum hefðbundna talsmáta.
Herra Smith hafði alltaf dáðst að konu sinni fyrir þann einstaka hæfileika að gráta með augunum. Frú Smith, sem ávallt hélt ró sinni, gat líkt og vélrænt og án allrar áreynslu kveikt á vatnsflauminum. Þetta átti sér alltaf stað á hinum heppilegustu tímum. Gat hún jafnvel stjórnað hvort tár hennar voru mörkuð samúð, reiði eða einskærri hamingju.
Herra Smith hafði hinsvegar aldrei getað tileinkað sér þetta. Hann tilheyrði hópi okkar sem gráta hjartagráti. Enginn gat sagt til um hvenær hann gat brostið í grát. Eftir erfiðan dag á skrifstofunni gat herra Smith tekið uppá því að brotna niður yfir ofsoðnum kartöflum eða hjartnæmum fréttaflutningi og þá var fátt sem gat stöðvað hann. Þá hristist hann af trega eins og ungabarn. Á öðrum stundum líkt og í jarðarförum þegar honum fannst allra augu hvíla á skraufþurrum kinnum sínum, gat hann ekki með nokkru móti kreist fram tár, ekki einu sinni hálft. Þrátt fyrir stöðug olnbogaskot Frú Smith sem að sjálfsögðu lét ekki sitt eftir liggja.
Það var ekki einungis táraflaumur sem Frú Smith hafði undir stjórn. Frú Smith ef út í það var farið gaf sig aldrei tilfinningunum á vald. Svona hafði hún verið svo lengi sem hún mundi eftir sér og lengur en það ef marka má aldraða foreldra hennar. Frú Smith hafði komist í gegnum lífið án teljandi skapsveiflna, hún rak sig ekki á í ógæti, gætti að því hvað hún sagði, hrópaði aldrei upp yfir sig í örvæntingu.
Það var líklega að þessum sökum sem að skólasystur hennar höfðu verið furðu lostnar þegar samband hennar og Herra Smith’s var gert obinbert. Hann tilfinningaveran sem gat sært fólk og fyllt það ánægju í einni og sömu svipan. Og hún, já eins og hún var. Þær dvöldu þó ekki lengi við þessar vangaveltur, Frú Smith hafði aldrei skipt sér af þeirra einkalífi. Ástum og sorgum og því fannst þeim ekki við hæfi að vasast um of í þessu máli.
Herra og Frú Smith eiga engin börn. Ekki svo að skilja að þeim líki ekki við börn. Því fer fjarri. Herra Smith hefur unun af því að ærslast með krökkunum og Frú Smith veit fátt betra en að sitja með þrifalegt og hljóðlátt ungabarn í örmum sér. En Herra Smith á erfitt með að hætta leiknum og verður á endanum uppgefinn á ærslaskapnum í sjálfum sér og gefur börnunum ekkert eftir í væli og pirringi. Frú Smith á hinsvegar erfitt með hve óstjórnleg börn geta verið. Þeim fylgir röskun á rútínunni. Næturbrölt, bleyjuskiptingar og óreiða eru allt óhjákvæmilegir fylgifiskar barneigna. Hræddust er Frú Smith þó við að óreiðan bærist inní hana sjálfa.
Þau voru því sammála um það að vera bara tvö. Þau eiga ekki einu sinni dýr því Herra Smith er með ofnæmi. Eina sem hann þolir eru hárlaus skriðdýr til að mynda eðlur og slöngur. Herra Smith átti salamöndru sem barn. Frú Smith tekur svoleiðis lagað ekki í mál. Sem barn var Herra Smith óstýrilátur. Eða það var það nafn sem kennararnir notuðu um hann “sá óstýriláti”, móðir hans kallaði hann apakött.
Í þá daga var lífsvilji og prakkaraskapur ennþá talið sem kostur en í dag hefði hann örugglega verið greindur ofvirkur með athyglisbrest. Þá hefðu foreldrar hans líklega ekki orðið gráhærð jafn snemma og raun varð. Foreldrar Herra Smith borða mikið af appelsínumarmelaði. Það þykir þeim vera tákn um velheppnað hjónaband. Ekki stjórnlaus ástríða og uppákomur. Heldur sáttin sem fylgir því að sitja saman í hljóði og borða nýbakað brauð með marmelaði.
Stundum týnist Herra Smith, oft andlega og stundum líkamlega líka. Frú Smith finnur hann alltaf.
Þegar Herra Smith deyr ætlar Frú Smith að stofna reggí hljómsveit.
No comments:
Post a Comment