(English version: Memories)
Morgundöggin endurspeglaði bros okkar og hlý golan bar okkur ljúfan ilm nýsprottins gróðurs. Smáfuglar sungu sín fegurstu ljóð, þeyttust um himinhvolfin í óþreytandi eilífð. Á bekk í litlum garði fjarri skarkala heimsins sátum við tvö. Ein saman. Saman ein. Þú hélst um hönd mína, eða var það ég sem hélt í þína. Krampakenndu taki, dauðhrædd um að lífið hrifsaði þig aftur til sín. Þú hafðir verið óþreyjufullur að halda áfram. Veröldin var gjöf. Á hverju einasta horni ný ævintýri. Önnur framtíð. Ég fæ þig til að setjast niður með semingi. Fortíðin hvílir þyngra á mér. Saman ein. Ein saman.
Þú stekkur upp af bekknum, þolinmæðin löngu þrotin og ferð að eltast við fiðrildi sem sveimar um. Örsmáir fíngerðir vængir, litlu stærri en fingur þínir. Hlátur þinn. Ástin mín.
Sótthreinsilyktin brennir vit mín. Blönduð ilm angistar og dauða. Andlitslausar manneskjur æða til og frá. Sumar í sloppum aðrar ekki. Sumar hafa tilgang aðrar ekki. Myrkrið í hjartanu í engu samhengi við flóðlýsta gangana.
Spiladós í fjarlægð. Mjúkir skuggar sem líða fram hjá glugga. Sólbakað gólfið þar sem við sitjum. Teiknum. Drögum fram fegurstu minningar okkar á blað. Litir regnbogans leysast upp í þúsund mola. Þekja blöðin þín eitt af einu.
-mamma!
Hrópar þú stoltum rómi og bendir á veru sem hafði rétt í þessu lifnað við. Útlínur mínar fagurgrænar.
-en hvað með þig ?
Þú bendir á sjálfan þig og brosir.
-ég er hér
Eins og einhverntímann ég gæti gleymt.
Hönd mín hvílir á þvölu enni þínu. Brúnu augun þín horfin úr veruleikanum, dvelja í móki þar sem ekkert er skýrt.
No comments:
Post a Comment