Ég gekk inn í vagninn og kinkaði kolli til bílstjórans. Peningarnir sem skömmu áður spiluðu sinfóníur djúpt í vösum mínum fögnuðu skammvinnu frelsi, þar til þeir hrundu niður í djúpan glerbaukinn. Heit lykt tók á móti mér, einmana fluga reyndi að vekja á sér athygli á meðan unglingur í horninu lét lítið fyrir sér fara. Regnbogalitir geislar skáskutu sér innum gluggana í heiðarlegri tilraun til að vekja eldri mann á aftasta bekk. Ég settist niður um leið og vagninn hökti af stað. Svartar glansandi táknmyndir líkar veggmyndum frumbyggja á móti mér. Án allra áhyggja af áfangastað, prentaðar á stólbak. Í bakgrunninum ljúfir tónar sem berast frá útvarpstæki fremst í bílnum. Ung kona raular með. Hún hrekkur við, roði hleypur í kinnar og hún sekkur ofan í sætið. Augnablik af raunveruleika.
Blágrátt fóður sætanna blikkar nýja farþega og bíður þeim sæti. Óskammfeilið þrátt fyrir trosnaðar hliðar og einstaka bletti. Grænn trefill dregur með sér konu inní vagninn. Þau setjast við hliðina á mér. Ég hika við að benda henni á að sætið er aðeins fyrir tvo. Græni trefillinn flæðir yfir okkur bæði.
Vagninn snarstoppar. Fjögur líf út, þrjú inn.
Við þokumst áfram. Ferðin í samræmi við staðnað loftið. Föst í tómarúmi. Strákur á óræðum aldri íklæddur sólgulri peysu lítur uppúr þungri bók. Hann virðist hissa. Hugurinn ennþá samantvinnaður ævintýraheimi.
Hópur barna þyrpist inn. Þögnin tvístrast í milljónir glerbrota. Geislarnir dæsa þungan þegar maðurinn aftast hrekkur upp úr heiðbláum draumsvefni. Þau dreifa sér um vagninn. Eitt tekur sig til og drepur fluguna með þumalfingrinum, án þess að blikka. Innyfli hennar lita glæran vegginn. Hin setjast í hnapp. Ég reyni að sperra eyrun og vona að enginn taki eftir því. Eru þau að ræða heimsyfirráð? Þori ekki fyrir mitt litla líf að gjóa til þeirra augunum. Græni trefillinn er ekki jafn varkár. Hún lítur á þau. Mér heyrist hún biðja þau um að lækka í sér. Hjartað berst um í brjósti mér. Blóðbragð í munni.
No comments:
Post a Comment